Skólahópar í heimsókn á Bjarteyjarsand

Í vor eins og undanfarið munum við á Bjarteyjarsandi taka á móti skólabörnum í sveitina. Reyndar tökum við á móti skólahópum og öðrum gestum allt árið um kring og núna í mars munum við rýja kindurnar okkar og þá er vinsælt að koma í heimsókn í fjárhúsin, ekki síður en á vorin. En flestir íslenskir skólahópar koma samt til okkar á vorin þegar sauðburður stendur yfir, enda ótrúlega skemmtilegt að koma í heimsókn í sveitina á þeim tíma. Undanfarin ár hefur það verið þannig hjá okkur að færri komast að en vilja og nú þegar eru margir dagar orðnir upppantaðir. Hér fyrir neðan eru nánari upplýsingar um verð, fyrirkomulag og aðstöðu hér á Bjarteyjarsandi:

- Bjarteyjarsandur er fyrst og fremst sauðfjárbú með um 600 kindur á húsi. Það er því mikið um að vera í sauðburði í maí og mikilvægt að undirbúa gesti vel undir að þeir eru að koma í heimsókn á sauðfjárbú í fullum rekstri. Hér er ekki húsdýragarður sem slíkur en auk kindanna og lambanna eru hér nokkrar geitur, kanínur, hundar, kisur, hestar og íslenskar hænur. 

- Fyrir neðan bæinn er falleg fjara og þangað er öllum gestum boðið að fara undir styrkri stjórn heimafólks. Fjaran er yndislegur staður til að leika, upplifa og njóta. Stundum, og sér í lagi ef veðrið er gott, er freistandi að vaða og því gott ráð að vera með aukasokka í töskunni.

- Við tökum á móti hópum bæði fyrir og eftir hádegi. Hver hópur hefur um það bil 2 tíma á staðnum og sá tími nægir til að fara í heimókn í fjárhús, í fjöru og borða nesti eða grilla. Tímarnir eru: 10-12 fyrir hádegið og 12.30-14.30 eftir hádegið. 

- Grill, borð og stólar eru til afnota fyrir gesti, einnig gerum við tilboð fyrir hópa ef þeir vilja að við sjáum um veitingarnar. 

- Kostnaður við heimsókn: Lágmarksgjald er 20.000 fyrir hópinn. Annars er verðið 600 krónur á hvern gest (starfsfólk undanskilið) en 500 krónur ef hópurinn er 150 manns eða stærri. Innifalið: Leiðsögn um fjárhús og fjöru, aðstaðan, kaffi, te, vatn og mjólk auk lítillar gjafar fyrir börnin. 

Nánari upplýsingar veitir heimilisfólk í síma: 433 8831 og 891 6626. Einnig er hægt að senda okkur tölvupóst eða skilaboð á facebook.