BJARTEYJARSANDUR

– HANI, KRUMMI, HUNDUR, SVÍN!

Viltu vita meira?

Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 433 8831 / 891 6626.

Landbúnaður

Á Bjarteyjarsandi er stundaður hefðbundinn sauðfjárbúskapur og gestum okkar er boðið að heimsækja fjárhús í fullum rekstri undir leiðsögn bænda á bænum. Hjá okkur er virðing borin fyrir dýrum og umhverfi. Við viljum að rekstur okkar byggi á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og leggjum áherslu á dýravelferð.

Dýrin á bænum Hlunnindi & matjurtir 

Við höfum opið daglega frá 1. maí til 31. ágúst. Frá 1. september til 30. apríl þarf að bóka með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara. 

Athugið að mikil ásókn er í að koma til okkar í maí en þá stendur sauðburður sem hæst og fjöldi skólahópa heimsækir Bjarteyjarsand. Á þeim tíma er nauðsynlegt að bóka heimsókn með góðum fyrirvara.

DÝRIN Á BÆNUM

Við búum með um 600 fjár en hér eru einnig fleiri dýr; íslenskar landnámshænur, hundar, hestar, kettir, kanínur, geitur og útigöngusvín á sumrin. 

Sauðfé

Á Bjarteyjarsandi eru alls um 600 fjár, svo lífið á bænum snýst að miklu leyti um sauðkindina. Sauðfjárbúskapur er árstíðabundinn og árið skiptist í nokkur tímabil eða lotur, sem gerir starfið enn fjölbreyttara og skemmtilegra. Flestir þekkja vel tímabil eins og sauðburð, rúning og réttir en færri vita kannski um fósturvísatalningu, sæðingar og gæðastýringu. Um þetta og meira til er hægt að fræðast á Bjarteyjarsandi.

Hænur

Við erum með nokkrar íslenskar landnámshænur. Landnámshænan er litskrúðugur og fallegur fugl og hver einstaklingur hefur sinn eigin persónuleika. Hænan er harðger og dugleg, hver ung hæna verpir eggi á dag um varptímann og flestar þeirra vilja liggja á eggjunum sjálfar og eru góðar mæður unga sinna. Íslenska landnámshænan er frekar stór hænsnfugl. Hún kom til landsins á tíundu öld og hefur verið landsmönnum til nytja og ánægju í gegnum aldirnar.

Geitur

Tvær geitur eru á Bjarteyjarsandi; mæðgurnar Ilmur og Björt. Ilmur kom til okkar frá geitabúinu á Háafelli. Þær eru skemmtilegar og fara sínar eigin leiðir, heimsækja gjarnan tjaldgesti og geta valdið usla!

Svín

Um nokkurt skeið höfum við haft útigrísi yfir sumartímann. Upphafið að því var samstarf við Svínaræktarfélag Íslands sem auglýsti eftir samstarfsaðilum í tilraunaverkefni um útieldi á grísum. Verkefnið tókst vel og síðan þá höfum við haft hjá okkur 8–10 grísi á hverju sumri. Svín eru skemmtileg dýr og við höfum lært að þau eru fljót að venjast og aðlagast nýjum aðstæðum, þau eru forvitin og félagslynd og óskaplegir nautnabelgir!

Kanínur

Í fjárhúsunum erum við með nokkrar holdakanínur. Þeim finnst gott að gæða sér á grænu grasi, fíflablöðum og arfa. Kanínuræktin eru í höndum yngstu kynslóðarinnar á bænum en það eru þau Elvar, Bjartey og Arna sem eru bústjórar.

Hestar 

Á Bjarteyjarsandi eru nokkrir hestar, sem heimilisfólkið á sér til ánægju og yndisauka. Hestarnir okkar eru eingöngu til einkanota, en einstaka sinnum koma gestir og fá að fara á hestbak. Á Bjarteyjarsandi er þó ekki rekin hestaleiga. Við leiðbeinum hestamönnum sem hér eiga leið um og bendum þeim á skemmtilegar reiðleiðir.

Hundar

Við eigum þrjá Border Collie fjárhunda sem heita Hróar, Snotra og Tindur. Hróar er öflugur fjárhundur og hjálpar mikið til á haustin þegar smalamennskur standa sem hæst. Hin tvö eru efnilegir lærlingar.

Köttur

Í gamla bænum á Bjarteyjarsandi býr kisan Nafna. Reyndar heitir hún Gríma – en hún er bara alltaf kölluð Nafna!

Viltu vita meira?

Viltu spyrjast fyrir um búskapinn á Bjarteyjarsandi?
Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 433 8831 / 891 6626.

HLUNNINDI & MATJURTIR

Við nýtum landsins gæði á milli fjalls og fjöru: Sinnum æðarvarpi, tínum krækling, ræktum matjurtir og tínum grös og ber í þeirri miklu matarkistu sem Hvalfjörðurinn er.
 

Æðarrækt

Öll Hvalfjarðarströndin er friðlýst vegna æðarvarps, þar með talin fjaran fyrir neðan bæinn okkar. Það er því mjög mikilvægt að hafa samband við okkur ef áhugi er fyrir því að fara í fjöruna.

Kannski má segja að æðarfuglinn sé eins konar hluti af bústofninum okkar; við hugsum um hann, verndum hann og fáum að nýta dúninn. Það er hvort tveggja gefandi og skemmtilegt að vera í kringum æðarfuglinn og taka þátt í að vernda varpsvæði hans.

Æðarfuglinn er villtur staðfugl sem verpir m.a. í eyjum, hólmum og meðfram strandlengjunni um allt land. Hann nýtir sér fjölbreytt æti úr sjónum og fjörunni og getur kafað niður á 20–30 metra dýpi. Æðarfuglinn hefur verið alfriðaður með lögum frá árinu  1849.

Fjaran

Fjaran er heill ævintýraheimur út af fyrir sig. Fjaran neðan við Bjarteyjarsand er friðlýst og um hana gilda ákveðnar umgengnisreglur. Fjöruna nýtum við til útivistar, fræðslu og upplifunar. Meðal þess sem finna má í fjörunni eru alls kyns skeljar, krabbar, krossfiskar, marglyttur, ýmiss konar þang og þari og svo er þar auðvitað fjölbreytt fuglalíf. Úti á skerjum halda sig líka nokkrir selir og stundum koma forvitnir kópar syndandi mjög nálægt landi.

Mikilvægt er að óska eftir leyfi landeiganda áður en haldið er í fjöruna.

VILTU VITA MEIRA?

Hvenær má tína krækling í fjörunni?
Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 433 8831 / 891 6626.

Matjurtaræktun

Á Bjarteyjarsandi reynum við að lifa í anda sjálfbærrar þróunar. Liður í því er að rækta okkar eigið grænmeti. Við erum því með kartöflugarð og kálgarð og einnig lítið gróðurhús þar sem við ræktum ýmis konar kryddjurtir, tómata, kúrbít og fleira. Hluta af framleiðslunni nýtum við einnig í eldhúsið okkar og afurðir sem við seljum beint frá býli.                      

Grasatínsla

Hvalfjörðurinn er fallegur og gjöfull. Auk hinnar margbreytilegu strandlengju einkennist fjörðurinn af fallegum dölum, hlíðum, heiðum og snarbröttum fjöllum. Auk hefðbundinnar matjurtaræktunar nýtum við þessi gjöfulu svæði til jurta- og berjatínslu og hvort tveggja markar matvælum okkar sérstöðu. Birkireyktur bláberjavöðvi hefur m.a. hlotið verðlaun í norrænni matarhandverkskeppni og bláberjalegið lambalæri með villtu blóðbergi hefur ratað í þætti frægra, erlendra sjónvarpskokka.