BJARTEYJARSANDUR

 – SVEITIN OKKAR!

Viltu vita meira?

Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 433 8831 / 891 6626.

Velkomin í sveitina okkar 

Bjarteyjarsandur í Hvalfirði er heimili þriggja fjölskyldna og þar er stunduð fjölbreytt atvinnustarfsemi sem tengist búskap, ferðaþjónustu, fræðslustarfsemi, matvælaframleiðslu, verktakastarfsemi og fleiru. Bærinn stendur á fallegum stað innarlega í Hvalfirði og þar hefur sama ættin búið allt frá árinu 1887.

Gönguferðir, fræðsla & leiðsögn Starfsmannahópar og óvissuferðir Gisting Skólaheimsóknir

Tjaldsvæðið hefur verið opnað!

Tjaldsvæðið okkar hefur verið opnað og verður opið í sumar. Kaffihúsið verður opið um helgar milli 11 og 16. 

Við tökum á móti hópum alla daga, miðað er við að pantað sé með 2 daga fyrirvara. Allar nánari upplýsingar í síma 4338831 og einnig má senda fyrirspurnir á netfangið: arnheidur@bjarteyjarsandur.is

*ATH* Í vor getum við því miður ekki haft opið eins og til stóð. Okkur var gert að loka búinu og lágmarka eins og kostur er allar heimsóknir. Okkur þykir það afar leitt en vonumst eftir skilingi í ljósi aðstæðna.

Við höfum opið daglega frá 1. maí til 31. ágúst. Frá 1. september til 30. apríl þarf að bóka með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara.

Athugið að mikil ásókn er í að koma til okkar í maí en þá stendur sauðburður sem hæst og fjöldi skólahópa heimsækir Bjarteyjarsand. Á þeim tíma er nauðsynlegt að bóka heimsókn með góðum fyrirvara.

Gönguferðir, fræðsla & leiðsögn

Frá árinu 2000 höfum við á Bjarteyjarsandi boðið upp á leiðsögn og fræðslu í Hvalfirði og nágrenni. Við þekkjum svæðið vel og leiðsögumenn okkar hafa menntun á sviði landfræði og umhverfisfræði, sem og uppeldis- og kennslufræði. Við erum fædd hér og uppalin og þekkjum því einnig allar ytri aðstæður býsna vel. Vinsælar gönguleiðir í nágrenninu eru Leggjabrjótur, Síldarmannagötur,  Glymur og fjörusvæðin. Við bjóðum einnig upp á rútuleiðsögn um Hvalfjörð, Akranes, Þingvöll og Borgarfjörð.

Glymur

Stórbrotin gönguleið að fossinum Glym, hæsta fossi landsins (198 m). Gengið er upp gilið að austanverðu en á nokkrum stöðum er hægt að sjá fossinn allan þaðan. Gengið er upp fyrir fossinn og vaðið yfir ána fyrir ofan hann. Því er gott að hafa vaðskó meðferðis. Þá er gengið niður gilið að vestanverðu með stórkostlegt útsýni yfir Botnsdal og Hvalfjörð fyrir augunum. Þessi ganga tekur um 3–4 tíma. Hún er nokkuð á fótinn og ekki hentug fyrir lofthrædda eða óvana. Frábærlega falleg leið með fjölbreyttu landslagi.

Síldarmannagötur

Gengið úr Skorradal og yfir í Hvalfjörð eftir fornri þjóðleið. Farið upp úr skógi vöxnum Skorradalnum og upp á Botnsheiði, fram Þyril en þaðan er magnað útsýni þótt fjallið sé ekki hátt. Þaðan er gengið niður hlíðina við Brunná í Hvalfirði. Skemmtileg leið sem tekur um 4–5 tíma að ganga. 

Leggjabrjótur

Skemmtileg leið sem hentar flestum þeim sem hafa unun af útivist og sögum. Lagt er upp frá Svartagili í Þingvallasveit, þaðan vestur Öxarárdal og niður í Botnsdal í Hvalfirði. Fjölbreytt leið sem tekur um 5–7 tíma að ganga.

Viltu vita meira?

Eða viltu panta leiðsögn í göngu?

Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 433 8831 / 891 6626.

STARFSMANNAHÓPAR & ÓVISSUFERÐIR

Vel útfærð ferð fyrir hópa sem ferðast í rútu um Hvalfjörð. Áhersla er lögð á margbreytileika svæðisins, hvort tveggja í náttúrufari og sögu. Má þar nefna sögu sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar og örlög Harðar og Helgu úr Harðar sögu og Hólmverja – einni af Íslendingasögunum okkar. Komið er við á skemmtilegum stöðum eins og Staupasteini, Fossá, Maríuhöfn, Bláskeggsárbrú o.fl. Gómsætar og óvæntar veitingar úr héraði krydda svo ferðina á eftirminnilegan hátt.

Viltu vita meira?

Eða viltu að við setjum saman óvissuferð fyrir hópinn þinn? 

Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 433 8831 / 891 6626.

GISTING 

Á Bjarteyjarsandi er í boði gisting í notalegum sumarbústöðum og á skjólgóðu fjölskyldutjaldsvæði.

Sumarhús

Í Fornastekk á Bjarteyjarsandi eru leigðir út vel útbúnir sumarbústaðir fyrir 5–7 manns. Bústaðirnir standa í fjallshlíð mót suðri og er útsýnið afar fagurt. Heitur pottur fylgir hverjum bústað. Helgar- og vikuleiga möguleg. Góðar gönguleiðir í nágrenninu og leiðsögn fáanleg í styttri og lengri ferðir.

Viltu vita meira?

Eða viltu ganga frá pöntun?

Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 433 8851 / 862 1751.

Tjaldsvæði

Tjaldsvæðið er á sléttri flöt neðan við gamla bæinn á Bjarteyjarsandi. Skjólbelti veitir ágætt skjól á hluta svæðisins. Salerni og ein sturta eru í þjónustuhúsi rétt ofan við tjaldflötina. Tjaldsvæðið er ætlað fjölskyldufólki og því skal ró vera komin á eigi síðar en kl. 23:00.

Gjaldskrá

1.500 kr. nóttin fyrir hvern fullorðinn
500 kr. nóttin fyrir börn 4–14 ára
Rafmagn: 1.000 krónur sólarhringurinn (hver notandi)

SKÓLAHEIMSÓKNIR 

Við á Bjarteyjarsandi bjóðum skólahópum að heimsækja okkur í sveitina og það höfum við gert síðan 1992. Við kappkostum að gera heimsóknina þannig úr garði að markmiðum ferðarinnar sé náð og því leggjum við mikla áherslu á góðan undirbúning og samskipti við hópana áður en þeir koma á staðinn. Auk heimsóknar í útihús nýtum við nánasta umhverfi okkar. Gönguferð í fjöruna er t.d. vinsæl, auk ýmissa náttúruleikja og sagna.

Vorheimsókn í sauðburð (maí)

Hefðbundin heimsókn tekur um 2–2,5 klst. (á staðnum). Deginum er skipt upp í fyrripart (9:30–12:00) og seinnipart (12:30–15:00). Litið er inn í fjárhús þar sem eru kindur, bornar jafnt sem óbornar, lömb, hrútar, kanínur, geitur og hestar. Í fjárhúsunum er heimilisfólk ávallt til staðar og um að gera að fylgjast með störfum sauðfjárbænda og spyrja þá spjörunum úr! Einnig er gaman að kíkja í hlöðuna og hænsnakofann en umhverfis hann halda íslensku landnámshænurnar sig. Haninn fer þar fremstur í flokki og galar ótt og títt, sér í lagi ef gestir eru í hlaði. Íslensku landnámshænsnin eru sérlega skemmtileg og skrautleg á litinn. Neðan við bæinn er falleg fjara. Um 10 mínútna gangur er þangað en fara verður sérstaklega varlega í grennd við þjóðveginn. Undir hann liggja göng, svo enginn þarf að fara yfir veginn til að komast niður í fjöru. Hóparnir fá fylgd heimafólks í fjöruna, en fjaran okkar liggur vestan megin við heimalækinn, Álftaskarðsá. Fjaran er sendin, með talsverðu af fallegum steinum og skeljum. Hólmar og sker eru áberandi, þeirra mest Bjartey sem bærinn heitir eftir. Aðgrunnt er í fjörunni og því óhætt að fara úr sokkum og skóm og vaða pínulítið, ef veðrið er gott.

Nánari upplýsingar um vorheimsóknir fyrir skólahópa.

Vetrarheimsókn í rúning (mars og nóvember)

Hálfsdagsheimsókn sem hefst á stuttu fræðsluerindi um íslenska ull. Að því loknu er boðið upp á morgunhressingu og í framhaldinu er farið í fjárhúsin. Þar er nemendahópnum skipt í 2–3 hópa sem hver hefur sitt hlutverk. Nemendur fá að fylgjast með rúningi, kemba ull og komast í nána snertingu við dýrin á bænum. Heimsóknin endar svo á grillveislu.

Harðar saga og Hólmverja / Vítahringur

Vítahringur er skáldsaga eftir Kristínu Steinsdóttur og byggir hún á Íslendingasögunni Harðar sögu og Hólmverja. Sagan um Hörð og félaga gerist að stórum hluta í Hvalfirði og við höfum sérhæft okkur í útfærslu sögunnar, sem hentar mjög vel fyrir miðstig grunnskóla og / eða unglingastig. Dagskráin tekur um 2–3 tíma, með viðkomu í Botnsdal, við Bláskeggsárbrú og í Helguvík. Á þessum stöðum er sögunni gerð skil, ásamt örnefnum og staðháttum.  Valkvætt er að enda á Bjarteyjarsandi í stuttri sveitaheimsókn og grillveislu. 

Viltu vita meira?

Eða viltu bóka skólaheimsókn?
Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 433 8831 / 891 6626.