Bjarteyjarsandur

– fjölskyldubú frá 1887

Viltu vita meira?

Vinsamlegast sendu okkur tölvupóst eða hringdu í síma 433 8831 / 891 6626.

Um okkur

FJÖLSKYLDUBÚ FRÁ 1887

Sama fjölskyldan hefur búið á Bjarteyjarsandi allt frá árinu 1887, þegar hjónin Jónas Jóhannesson og Guðfinna Jósepsdóttir hófu þar búskap. Sonur þeirra, Guðmundur Jónasson, tók við búinu árið 1929 og bjó þar til ársins 1980 ásamt eiginkonu sinni, Guðbjörgu Guðjónsdóttur. Síðar tók við búskapnum sonur þeirra, Sigurjón Guðmundsson, og Kolbrún Eiríksdóttir, eiginkona hans. Bróðir Sigurjóns, Jónas Guðmundsson, býr þar einnig og er með vélaverkstæði. Kolbrún og Sigurjón eiga og reka sumarhús á jörðinni og leigja út sumarbústaðalóðir. Nú er fjórða kynslóðin tekin við; þau Guðmundur, sonur Sigurjóns og Kolbrúnar, og kona hans, Arnheiður, og einnig búa á bænum Guðjón, sonur Jónasar, og Þórdís kona hans.


 

Eftirtaldir búa nú á bænum:

Arnheiður Hjörleifsdóttir, Guðmundur Sigurjónsson og dóttir þeirra, Guðbjörg Bjartey, Bjarteyjarsandi 1
Kolbrún Eiríksdóttir og Sigurjón Guðmundsson (foreldrar Guðmundar), Bjarteyjarsandi 2
Þórdís Þórisdóttir, Guðjón Jónasson og börn þeirra; Elvar Þór og Arna Rún, Bjarteyjarsandi 3
Jónas Guðmundsson (faðir Guðjóns), Bjarteyjarsandi 3

NÆRUMHVERFIÐ

Hvalfjörður er djúpur og svipmikill fjörður inn af Faxaflóa – friðsæl náttúruperla steinsnar frá höfuðborginni. Möguleikar til útivistar og náttúruupplifunar eru miklir og fjölbreyttir – og hér lúrir sagan við hvert fótmál. Glymur, hæsti foss landsins, er í botni fjarðarins, tignarlegur og mikilfenglegur. Í Hvalfirði er fjölbreytt þjónusta, gististaðir, veitingastaðir og söfn. Á vefnum Visit Hvalfjörður eru upplýsingar um ferðaþjónustu og athyglisverða staði í Hvalfirði. Á vefnum Upplifðu Vesturland er að finna mikið af góðum upplýsingum um ferðalög og afþreyingu á Vesturlandi. Á vefnum Touch Iceland eru upplýsingar um skipulagðar ferðir um Hvalfjörð og nágrenni.

UMHVERFISSTEFNA

Það er stefna okkar á Bjarteyjarsandi að framleiða hreinar hollustuafurðir fyrir neytendur, þar sem virðing er borin fyrir dýrum og umhverfi. Við viljum að rekstur okkar byggi á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og leggjum áherslu á félagslega velferð og efnahagslegan rekstrargrundvöll án þess að ganga á höfuðstól náttúrunnar. Á Bjarteyjarsandi rekum við ferðaþjónustu sem byggir á skynjun, upplifun og virðingu. Jafnframt viljum við viðhalda menningarlegum og líffræðilegum fjölbreytileika, miðla þekkingu og tryggja að ferðaþjónustan okkar gangi ekki á þær auðlindir sem hún byggir á. Síðast en ekki síst viljum við á skila jörðinni í betra ástandi til komandi kynslóða en hún var í þegar við tókum við henni.

um_okk_mynd1.png

Fjölskyldan á Bjarteyjarsandi 3; Þórdís Þórisdóttir, Guðjón Jónasson, Elvar Þór og Arna Rún.

um_okk_mynd2.png

Góðir gestir í gönguferð.

um_okk_mynd3.png

Guðbjörg Jónasdóttir, dóttir Jónasar Guðmundssonar, er hér í góðum félagsskap frænda sinna á Ferguson 35 sem faðir hennar og bræður hans gerðu svo myndarlega upp.

um_okk_mynd4.png

Arnheiður Hjörleifsdóttir og Guðmundur Sigurjónsson á Bjarteyjarsandi 1 í sjóbaði á góðum sumardegi. Þau hjónin og dóttir þeirra, Guðbjörg Bjartey, eru einnig á myndinni hér efst á síðunni.